Króatía - Svanhvít Sjöfn

Heil og sæl kæra fjölskylda, vinir og þið hin sem eruð hvorki fjölskylda né vinir.

 

Ég heilsa(blogga) ykkur héðan úr húsbílnum okkar góða sem við sóttum á flugvöllinn í Zagreb. Húsbíll...hljómar eitthvað sem aðeins fólk sem lifað hefur þrisvar sinnum lengur en við unga fjölskyldan notast við. Jú, mikið rétt. Fyrstu nóttinni okkar í húsbílnum eyddum við á tjaldstæði við Plitvice National Park í Króatíu. Þegar við keyrðum inn á svæðið leit í fyrstu út eins og við værum ógeðslega sniðug að vera á "low-seasoni", lítið væri um troðning og að við værum eina fjölskyldan sem væri ferlega flott'áði á húsbíl. Ooooneeeeiii, við keyrðum inní húsbíla veröld þar sem 90% mannskapsins var á húsbílum, 89% þeirra voru Þjóðverjar og 88% Þjóðverjanna voru 70 ára + ! Þarna sá maður nýjar tegundir af lúxus tjald-hægindastólum, allskyns sólhlífar, útilegu tæki og tól og allir voða glaðir með bros á vör að tæma ,,klósettin" sín í angandi klóakfílu. Við settum okkur nú þá reglu strax að það væri bannað að kúka í húsbílaklósettið okkar, jahh nema um neyðartilfelli væri að ræða(það tók pabbi fram strax, þ.e.a.s. neyðartilfellið). Allt var til alls á tjaldstæðinu, fáránlega hrein og fín klósett og sturtur þar sem Þjóðverjarnir snyrtilegu stóðu sveittir við að moppa, skafa og hreinsa eftir sig...þetta ættu Íslendingar að taka sér til fyrirmyndar. Ég var t.d. bara í blússandi sælu eftir að hafa farið á klósettið á tjaldsvæðinu af því að það var allt svo snyrtilegt. Kom skælbrosandi til baka þar sem restin af fjölskyldunni rökræddi um hvar best væri að leggja húsbílnum. Maður gerir einhvern veginn ráð fyrir að það sé allt soldið ógeðslegt...pissulykt, kúkarendur, tannkremsklessur og bjór-ælur, það er ekta íslenskt tjaldstæði. Mælikvarði minn á hversu fínn mér þykir gististaður okkar fer oftast eftir því hvernig klósettaðstæðan er...

 

Æj já, ég gleymdi að segja ykkur frá króatíska stráknum sem við GuðnýGígja og Pálmi Snær sátum á móti í lestinni á leiðinni til Zagreb. Hann var frábær. Mest var hann þó frábær af því að hann gaf okkur vatnssopa(við vorum að deyja úr þorsta og hungri). Hann var á leiðinni heim frá Belgíu. Var mjög áhugasamur um okkur og landið okkar og við um hans. Biðin í lestinni fór í að skiptast á að spila og syngja á gítarinn, takast í hendur og ræða um perlur Króatíu. Hann gerðist einnig svo frábær að panta fyrir okkur ódýrustu leigubílana og bíða með okkur eftir þeim...planið hjá okkur var að taka rútu á flugvöllinn, það kom svo náttúrulega í ljós að auðvitað var töluvert dýrara að taka leigubíl, en ég meina....hann var svo indæll að aðstoða okkur.

 

Okei, PLITVICÉ blebleble(á króatísku) var sá allra fallegasti staður sem ég hef á ævi minni séð(nema fyrir utan íslenska náttúru, eins og mamma sísvanga tók þó fram þegar við vorum að dást af náttúrunni). Vá vá vááá...ég ætla bara að láta myndirnar tala sínu máli...myndir verða neðst.

 

Áður en ég tala um næsta áfangastað okkar ætla ég að útskýra fyrir ykkur hvers vegna mamma fékk nýja viðurnefnið sitt: ,,Mamma sísvanga". Jú, mamma tók þá frábæru ákvörðun að hætta á nikótíntyggjóinu daginn sem við fórum út. Allt gott og blessað með það og við rosa ánægð með hana. Jú, við bjuggumst við töluverðum ,,aukaverkunum" sem allir héldu að mundu tengjast pirringi og stuttum þráði. Ótrúlegt en satt þá hefur sá hluti blessunarlega gengið mjög vel....en mamma er ALLTAF svöng. Þegar við erum nýbúin að kyngja morgunmatnum þá fer mamma aftur að tala um mat. Það sem er svo fyndið við þetta er að svo hefur hún alltaf svo góða og gilda ástæðu fyrir því af hverju hún er svöng: ,,Já, sko ég borðaði nú ekki mikið í morgun. Ég tók tvo bita af brauðinu hjá pabba þínum, borðaði hálfan banana og svona 4 skeiðar af jógúrti. Síðan hef ég ekkert borðað nema að ég tók þarna einn bita af hamborgaranum hans Pálma, sem varla má kalla bita, hann var svo lítill...já og fjóra kóksopa". Við höfum gert mikið grín af henni og sýnt henni hversu fyndið það er þegar hún byrjar að telja upp alla helv.. munnbitana sem hún hefur tekið af hinu og þessu :)

 

Annað...pabbi ,,prinsessan á bauninni" hefur bara varla staðið undir nafni. Eitt af áhyggjuefnum okkar áður en við fórum í reisuna var rúmvesenið á pabba. Neihh, kallinn hefur sko látið sig hafa alla klassa af rúmum, kojum og beddum. Hér með vil ég kjósa að kalla hann pabba veðurblíðu. Ég veit ekki hversu oft á dag pabbi talar um hversu heitt er og ef hann er ánægður með það, þá talar hann mjög mikið um það. Ef það hins vegar fer síðan yfir þá gráðu sem honum þykir of heitt, þá talar hann LÍKA mikið um það. Svona heyrist í honum: ,,Jáhh, 27 stiga hiti úti, það er sko aldeilis flott". Svo þegar hann er búinn að koma sér vel fyrir í sólinni kemur stundum: ,,Það er ekkert að þessu". Svo muldrar hann svona við sjálfan sig á meðan hann er að keyra: ,, 26 stig....26 stig". Hins vegar hefur líka komið: ,,Úff, 29 stig, það má nú varla verða heitara". Pabbi hefur líka verið sá eini sem hefur átt einstaklega erfitt með sig þegar hann heyrir af veðurblíðunni sem er búin að vera heima á Íslandi, SÉRSTAKLEGA á Patró um sjómannadagshelgina.

 

Jæja...eftir paradísina í Plitvicé ákváðum við bara að benda á einhvern stað sunnar á kortinu og enduðum í litum bæ sem heitir Biograd. Það virtist vera vel valið hjá okkur. Við komum seint að kvöldi og fundum risa tjaldstæði þar sem hvert og eitt stæði var númerað. Við völdum okkur extra zone þannig að húsbíllinn okkar var aðeins 30 metrum frá ströndinni og sjónum. Þarna komum við í enn stærri húsbílaheim. Þarna sér maður kannski eitt tjald og bara: ,,Neihh vááá, þarna er tjaaald, ógeðslega kúl". Næsta degi var eytt í sólbaði og við ströndina. Það var í raun svona fyrsti sólarlanda-dagurinn okkar, við höfum ekkert legið í sólbaði. Um kvöldið ákváðum við að taka röltið meðfram ströndinni og þar, enn og aftur fyrir tilviljun, lentum við á svaka hátíð. Þarna var einhvers konar matar- og handverkshátíð kílametralangt. Alls kyns ostar, sultur, vín, kjöt, pylsur, skartgripir og fleira var á básunum, allt heimatilbúið og var boðið upp á smakk á flestum stöðum. Það sem hreif okkur þó sértaklega voru fullt af króatískum tónlistarmönnum sem voru alltaf svona 5 saman í hóp að syngja og spila á gítar, mandólín, kontrabassa og fleira. Þvílíkt stuð og gestir og gangandi tóku undir. Á meðan við nutum þess að rölta á milli bása og njóta kvöldsólarinnar heyrðist nokkrum sinnum í pabba: ,,Sjómannadagshelgin hvað?" :)

 

Næsta dag var stefnan tekin enn sunnar í Króatíu, nú skyldi sko elta sólina og finna góða strönd. Næstu klukkutímar fóru í keyrslu og þónokkurn pirring að finna tjaldstæði og réttan stað til að koma sér fyrir á. Við römbuðum þó inn á bæ sem heitir Makarska. Þar lágum við á ströndinni, syntum í ofur tæru Adriahafinu, horfðum á brjóstaberar konur í sólbaði og leigðum okkur svo vespu til að bruna um bæinn og skoða okkur um....já og þetta var grín með berbrjósta gellurnar.....or is it??

 

Eftir nokkra leit fundum við tjaldstæði í næsta bæ frá Makarska. Það var miklu minna en þau sem við höfðum verið á síðustu nætur...líka ódýrara. Fáránlegt hvað við erum búin að þurfa að borga mikið inná tjaldstæðunum, maður hélt einhven veginn að við værum þvílíkt að spara okkur gistingu og transport með þessum máta...en við þurfum alltaf að borga fyrir bílinn og okkur fimm. Allavega, það er nákvæmlega ekkert í þessum bæ. Við mamma ákváðum að taka röktið(ég tek það fram að það var laugardagskvöld) og reyna að finna opið kaffihús eða á bar til að komast á internetið í leit að leikhúsmiðum í London. Við löbbuðum í gegnum niðamyrkur og komum örugglega að EINA barnum í bænum. Mamma fékk sér rauðvínsglas og ég bolla af kakói. Rauðvínið var ískalt og það aaaalversta sem við höfum báðar smakkað og kakóið var hlandvolgt og fínt:) Þegar við komum til baka sögðust GuðnýGígja og Pálmi aðeins hafa verið að glamra á gítarinn og syngja, eftir 5 min var bankað á húsbílinn: "Susssh, the time is ten o´clock". Á LAUGARDAGSKVÖLDI. Þar fór ,,sjómannadagsdjammið" okkar í ruslið....hehe:)

 

Nú fer að styttast í annan endann á þessari ferð okkar. Ég segi það og skrifa....ÞETTA ER BÚIN AÐ VERA HREINT ÚT SAGT FRÁBÆR FERÐ:) Við höfum mikið talað um það hversu sniðug við erum að hafa tekið þá ákvörðun að fara öll fimm saman í svona reisu. Við höldum að það sé ekki að fara að gerast aftur, allavega ekki í svona ferð. Það er frekar fyndið þegar maður fer að spá í það að við ,,krakkarnir" höfum næstum dottið í þann fíling að vera bara í hlutverki barnanna í þessari ferð. Það er svo langt síðan við höfum öll verið saman í svona langan tíma í einu. Allt í einu hverfur ábyrgðartilfinningin mikla, hlutverkaskiptingin verður öðruvísi og innst inni hugsar maður: ,,Æjjj, mamma og pabbi redda þessu".

 

Ég er svo þakklát fyrir að eiga svona samrýmda fjölskyldu. Við munum seint gleyma þessari ferð og er þetta blogg er líka eins konar dagbók fyrir okkur til að eiga í framtíðinni. Það hafa engin stórkostleg vandamál komið upp. Það vita það allir sem þekkja okkur vel að við erum með svo hrikalega mikið jafnaðargeð öll sömul..........ekki? ;) Nei í alvöru talað. Jú, það hafa allir sterkar skoðanir á hlutunum og við rökræðum um hlutina(stundum soldið hátt) en eftir 5 mín er það bara búið:) Ég tel það var einstaklega góðan kost og við ,,vinnum" vel saman. Ég á bestu fjölskyldu í heimi:)

Í dag ætlum við líka að taka því rólega aftur á ströndinni í Makarska, keyra svo í áttina að Split í kvöld þar sem við munum eyða morgundeginum og fljúga þaðan til London snemma á þriðjudagsmorgun.

Kommentið nú á okkur;)

Bleble,

Svanhvít Sjöfn 

 

 

IMG_5931

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_5948

Við lentum í dembu, sem sem betur fer entist ekki mjög lengi. 

 

 

 

 

 

 

 

 IMG_5973

 

IMG_5976 

 IMG_20120531_143726

IMG_20120531_144109 

IMG_20120531_145836 

IMG_20120531_150110 

IMG_20120531_152258 

20120531_152640 

IMG_5990 

IMG_6012 

IMG_6017 

IMG_6030 

 

IMG_6055 

IMG_6040 

IMG_6071 

IMG_6078 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ungverjaland 25. maí - 30. maí

Jæja þá er komið að Prinsessunni á bauninni (pb) að setja niður nokkra punkta um ferðalagið mikla.
Minn partur er frá Banska Stiavnica þar sem Mamma mamma (mm) endaði sitt blogg.  Áður en ég hef mitt þá eru hér nokkrir punktar sem mm gleymdi: Við ætluðum bara að vera ca 1 til 2 daga í Banska Stiavnica en þar sem að allt lék við okkur, veðrið og verðið, rólegheitin og svo fannst okkur mjög þægilegt að vera ein með þetta hostel þar sem ekki einu sinni húsráðandi var mikið til staðar eða þar til að okkar keeere nordiske vennnner frá Svíþjóð komu keyrandi alla leiðina frá heimalandinu á Ástin Míni bil sem var kominn á fimmtugsaldurinn.  Það var virkilega gaman að spjalla við þessa típísku skandinava sem voru pínu hippar.  Þar var ekkert GPS og músik spiluð af Ipot eins og við teljum nauðsynlegt í okkar bílaleigubílum sem helst þurfa að vera með cruse control og.og...nei þar var bara kortið og vélarhljóðið sem blever. Þau voru á leiðinni á Míni ættarmót....þar sem að koma saman um 1000 Ástin Míni bílar við vatnið Balaton í Ungverjalandi.
Ástin Míní! 
Já Ungverjaland eða höngary..er næsti stoppustaður þessarar fjölskyldu og hafandi sagt það þá væri kannski skemmtilegast að byrja svona:
Einu sinni voru hjónin Prinsessa á bauninni, Mamma mamma Rúdolf og dæturnar NotJustaPrittyFace og TheSleepingButy ásamt syninum Hrotubelgi sem ætluðu að fara í  mjög hættulegt ferðalag til lands þar sem allir eru hungraðir.... En fyrir þá sem þekkja þá er ekki líklegt að þessi fjölskylda endist lengi þar.
Hungaryðir Íslendingar 
Jæja, eina leiðin til að komst frá þessum frábæra stað sem var okkar síðasti stoppustaður í Slóvikiu var að láta senda okkur bílaleigubíl frá aðeins stærri bæ sem var um 15 mín. keyrslu frá okkar. Eftir töluvert vesen og mörg sms á milli okkar og bílaleigunar þá poppaði bíllinn okkur nokkuð á óvart upp á réttum stað á réttum tíma. Þetta var Pegout 407 sem okkur leist bara nokkuð vel á eða þar til komið var að því að setja bakpokana í skottið, því það var ekki nokkur leið að finna út úr því hvernig ætti að opna helv..skottið. Bílaleigan hafði sagt að fjarstýringin væri biliuð á lyklinum og þar var mynd að opnun á skottinu. Það var aaalveg að fara að myndast mikið panic þegar NJAPF sannað sína nafnbót heldur betur...hún hafði stungið puttanum í núllið í 407 og púff...skottið opnaðist og NJAPF leið eins og andanum hans Alladín sem hafði uppfyllt eina ósk af þremur.
NotJustAPrettyFace og andinn að koma úr ,,lampanum 
Ferðinni var núna heitið til Eger sem er reyndar mun stærri bær en við héldum eða um 50 þús. en þangað var ferðinni m.a heitið vegna þess að hann á að vera frægur fyrir vínrækt.  Við sáum því fyrir okkur sveitaþorp umlukin vínekrum en vorum fyrir smá vonbrigðum þar sem að þarna mætti okkur meira vestrænt yfirbragð á flestu. Tískulöggunni í okkar hóp varð á orði að það væru ekki allir hrikalega halllærislegir en flestir og svo gerði hann óformlega könnun á háralit kvennanna og taldi ekki undir 90% sem væri með rautt (RAUTT..) litað hár.
 
Eftir að hafa verið í hinum löndunum tveimur og átt í erfileikum að greina á milli tungumálsins þeirra þá var skemmtilegt að heyra í ungverskunni sem hljómar ótrúlega mikið eins og  finnska, enda hefur málið sama uppruna. Það er tvennt sem hefur lyktað verulega ílla í ferðinni (okei, þrennt) það eru ísskáparnir þar sem við fengum fyrstu tvær gistingarnar og andfílan úr gistihúsaeigendunum í Bradislawa og Eger - Jöööökk. Eftir að hafa borðað ýmislegt sem fjölskyldan er ekki vön þá getið þið giskað á þetta númer þrjú..
En andfúla konan í Eger var mjög elskuleg og gistingin mjög mjög hrein og krúttleg. Við tókum fljótt út bjórvísitöluna sem okkur fannst hafa hækkað aðeins og bjórinn kominn upp í 3 til 500 forint sem er gjaldmiðillinn hér og er um 0.58 krónur.
Bjórvísitalan 
Við tókum einnig túristalest um bæinn og stoppuðum í Szépasszony-völgy eða í Dal hinna fögru kvenna en þar er hægt að ganga á milli yfir 40 vínkjallara og smakka vín og eða bara drekka og drekka og.. Undirritaður var mjög spenntur yfir þessu og sá fyrir sér að þarna væri gaman að eyða miklum tíma og hefði þeim tíma verið vel varið ! En einhvernvegin var ekki almenn stemming fyrir því og var því frestað þar til næst !!!  
Eftir að hafa farið að borða á Ungverskum veitingastað um kvöldið fórum við snemma að sofa eins og öll önnur kvöld. 
 
Daginn eftir var pakkað saman og haldið af stað út í óvissuna enn og aftur. VIð höfðum lesið það í Lonly planet sem hefur verið eins konar vegvísir og biblía í þessari ferð að það væri mjög flottur grænmetis og ávaxtamarkaður í Eger. Þar keyptum við okkur morgunmat og sátum svo á bekk og svolgruðum í okkur nýjum ferskum ávöxtum. 
Það var gott fyrir mallakútinn og ekki síður samviskuna sem var farinn að ískra í vegna alls sukksins.
ÁvaxtakarfanMelóna í slátrun
 
Við vorum búinn að labba ca 500 metra rétt fyrir hornið á götunni þegar fjölskyldan í æfingtýrinu í landi hinna ,,hungröðu" staðnæmdist snögglega fyrir framan skilti og það sló þögn á hópinn. MAC DONALDS...I´M LOVING IT !!! Hrotubelgurinn var fyrstur til að fá málið og kjark til að segja ,,mér er sama hvað þið segið ÉG ÆTLA að fá mér MC. Ykkur kannski á óvart þá var prinsessan á bauninni alls ekki sáttur við að fara þarna inn og skemma ónýtt magaplássið með þvi sem allstaðar er hægt að borða. NEI, nú værum við í Ungverjalandi og það skildi borðast ungverskur matur, gullas eða annað traditionlegt.  Hjörðin lét sem hún heyrði ekki þessar óánægjurödd og þusti inn og það var Mamma mamma sem lokaði á eftir sér dyrunum á meðan Pb stóð fyrir utan ánægður með að hafa staðið þessa freistingu. Það verður ekkert sagt meira frá því hvernig þetta tómarúm var svo uppfyllt seinna þann daginn...
 
Við fórum síðan í nýjan vatnsrennibrautagarð þar sem hægt var að liggja í sólbaði og heitum pottum og var slakað á þar fram eftir degi. Nú var ferðinni heitið til Balaton vatns sem er gríðalega stórt vatn í miðju Ungverjalandi og einskonar sumarleyfisstaður Ungverja og annarra nágrannaþjóða.
 
Á leið okkar þangað þagnaði allt í einu sú eina sem ekki má missa athyglina í ferðinni frú Málfríður Ratvís Hjálplegadóttir. GPSið allt í einu bilaði og datt út og það í miðri Búdapest en þar þurftum við að keyra í gegn til að komast til Balaton. Með snarræði aðstoðarbílstjórans tókst að toga upp úr Málfríði nokkur orð og vísbendingar sem komu okkur svo alla leið á leiðarenda. Fjúkk, við sáum fyrir okkur að ferðast með kortið eitt að vopni og voru ekki allir (PB) rólegir við þá hugsun.
 
Við spottuðum út stað sem heitir Siofok og var alveg eins og við værum kominn til Benidorm þar sem ekkert nema unglingar væru samankomir til að djamma, bar við bar við bar með lélegum veitingastöðum inn á milli. Hrotubelgur sá fljótt að skinkurnar voru í stöflum þarna og einhvernvegin voru ungarnir okkar með kjánahroll yfir útliti stúlkna og stráka sem voru þarna. Eftir að hafa fengið mjög flotta gistingu í glænýrri íbúð og hafa horft á íslenska lagið flutt ,,óaðfinnanlega" fórum við og röltum um og fengum okkur bita. Gömlu ákváðu svo að koma sér heim í háttinn enda klukkan orðin rúmlega ellefu en krakkarnir vildu gefa þessu séns og flökkuðu á milli bara fram eftir miðnættið.
DJAAAAAMM 
Daginn eftir tékkuðum við okkur út með semingi þar sem að þetta var svo flottur svefnstaður og fáranlega ódýrt miðað við gæðin eða um 20 evrur á mann.
 
Hjólatúr í SíófókVið leigðum okkur hjól og hjóluðum um svæðið í frábæru veðri, skoðuðum útimarkað og fengum okkur bita.
 
Við ákváðum svo seinnipartinn að færa okkur hinum megin við vatnið til Balatonfured en ferðabiblian okkar sagði að það væri rólegra og fallegra og það stóð heima. Aftur fengum við mjög flotta gistingu, tvær stúdioíbúðir með sameignlegum svölum fyrir rúmlega 2000 isl.krónur á mann !! Þarna var ákveðið að staldra við og slappa af í tvær nætur. Um þá dvöl er frekar lítið að segja annað en að þarna var allt mjög hreint, afslappað og veðrið gott fyrir utan þrumurnar sem við lentum í og rigninguna í kjölfarið sem var sú mesta sem nokkurt okkar hafði séð á æfinni. Við vorum þá í hólatúr um bæinn og allt í góðu með það en vitið hvað, þegar við renndum á hjólunum framhjá einni bensínstöðinni þá sáum við þar litla græna Ástín Míni bílinn og sænsku hjónin, ótrúleg tilviljun. Allt fór bókstaflega á flot á nokkrum mínutum og húktum við blaut og köld undir skyggni veitingastaðar sem var þó ekki nema um 200 metra frá gistingunni okkar.  Ein þruman skilaði risa höglum og var að sjá að aðrir sem þarna voru litu á okkur ásökunaraugum að við Íslendingar hefðum komið með þetta veður!
I rigningunni í Balatonfured

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Nú rann upp sá dagur sem við þurftum að fara til Búdapest til að skila bílnum og þurfum við að vera þar kl 8:30 á einni af þremur lestarstöðum sem þar eru og hitta starfsmann bílaleigunar. Hann hafði þá tekið lest frá sinni heimabyggð i Slóvakíu klukkan þrjú um nóttina til þess að sækja bílinn, vá mikið fyrir okkur haft. Allt gekk enn og aftur upp - við á réttum stað og þrátt fyrir þessa stóru lestarstöð þá var hann nánast fyrsti maðurinn sem við mættum á bilastæðinu. Ég held reyndar að hann hafi verið jafn undrandi og við að þetta gengi allt upp. Eftir að hafa tekið íslenskt handaband af fullum krafti var hann kvaddur með þeim orðum að við munum mæla með honum á íslandi sem honum fannst örugglega aðeins meira tii koma en efni standa til..
Þá var strunsað með bakbokana til að finna Hostel Aborignial -
leitað að gistingu í Budapest
 
 
 
 
Já, ýmislegt kom upp í hugann þegar undirritaður sá hvað hafði orðið fyrir valinu. En þetta var bara fínt og alveg gott fyrir þessar fáranlega fáu krónur. Þar lá bæklingur sem auglýsti fría gönguferð með leiðsögn um Búdapest sem við nutum svo í 3 tima og var það frábært. Sáum flottustu staðina, fengum söguna og venjur á mjög skemmtilegan og perónulegan hátt. Svo í lokin var fólki ,,frjálst" að tipsa leiðsögumennina og það var ljóst að þetta viðskiptamódel er sko að slá í gegn hjá þeim. VIð mælum hiklaust með þessu fyrir fólk sem fer til þessa ofsa flottu borgar. 
IMG_20120529_170626 Budapest Pálmi

Eitt verð ég þó að taka fram að á vegi okkar urðu tveir stafir sem varð til þess að undirritaður sat einn og drakk kaffi á annan tima, þetta voru stafirnir H og M, sei nó mor !!!
Eitt af því sem leiðsögufólkið gerði var að mæla með skemmtilegum pöbbum (ekki svona pöbbum eins og mér heldur stöðum til að drekka alkóhól á ;-)) er eitt sem er nokkuð frægt og algengt hér í Ungverjalandi og það eru svokallaðir Ruinbarir eða barir sem eru í rústum bygginga sem voru byggðar á kommunistatímanum fyrir skóla og opinberar stofnanir.  Við enduðum semsagt frábæran dag á einum slíkum þar sem við hittum m.a tvo hressa kalla frá Ástralíu og sátum við með þeim að smá sumbli fram yfir miðnætti. 
 
 
 
 
Ruinbarinn í Budapest
 
 
Eftir tæpa fjögurra tíma svefn þá var strunsað af stað kl 5:30 út á lestarstöð til að taka lest til Zagreb í Króatíu sem er um 6 tíma ferð. Ég lýk þessu bloggi á svipaðan hátt og ég hóf það um fjölskylduna;  Prinsessa á bauninni, Mamma mamma Rúdolf og dæturnar NotJustaPrettyFace og TheSleepingBeauty ásamt syninum Hrotubelgi sem hættu sér inn í landið þar sem allir eru Hungraðir...því þegar þetta er skrfiað þá höfum við ekki fengið vott né þurrt frá því í gærkvöldi en núna er þessari 6 tíma lestarferð að ljúka í gríðalegum hita, engri loftkælingu og hér er ekki hægt að kaupa svo mikið sem vatn, nei slík þjónusta er óþörf. Vitandi hvað það verður sem við gerum fyrst í Króatíu heldur í okkur lífinu og voninni um að enn höfum við tekið bara fína ákvörðun.
 
 
 
 
Nokkrir samhengislausir punktar:
1. Undirritaður telur að hann eigi að fá annað ferðaviðurefni þar sem ekki hafa heyrst margarkvartanir um svefnstæði !!
 2. Mamma mamma er líka kominn með nýtt viðurnefni sem er mamma Sísvanga (hún er nefnilega svo dugleg að hún hætti á nikontíntyggjóinu í byrjun ferðar og eitthvað virðist það hafa áhrif á matarlystina)
3. Allstaðar sem við komum og kynnum hvaðan við erum þá er alltaf sagt ,,VÁÁÁ, frá Íslandi" jafnvel drengur frá Singapor sem sagði ,,Vá alla leið frá Íslandi" en hann var smá vandræðalegur þegar ég spruði hversu lengi hann hefði þurft að fljúga til að koma hingað sem voru 13 tímar og svaraði á þeim tíma gætum við flogið fram og til baka og lagt okkur í nokkra tíma eftir flugið !!!
4. Einnig vekur mikla athyglia að við séum öll fjölskyldan að ferðast saman þ.e. vegna aldurs krakkanna. 
 
Með bestu kveðjum og von um að Íslendingar skemmti sér vel og þá sérstaklega Patreksfirðingar um Sjómannadagshelgina.
 
Skjöldur Skjöldur í Búdapest

21. - 25. maí. Slóvakía

Þar sem Pálmi Hrotubelgur Snær skildi við ykkur tek ég, mamma Mamma, við ,,pennanum".

Flugferðir, bílferðir og lestarferðir hafa allar gengið mjög vel og verið hinar skemmtilegustu. Þó ekki á þann veg sem þið líklega ímyndið ykkur, öll fjölskyldan í rosa stuði að syngja og tralla eða í einhverskonar ferðaleikjum. Ó nei..........

Smá sýnishorn:

NotJustAPrettyFace steinsofandi  20120515_103239Hrotubelgur steinsofandi, þó ekki að hrjóta Sofi sofiEnglabassinn að lúlla hjá mömmusínSkrítin svefnstelling en það er ekkert nýttLúlli lúllSofðu unga ástin mín

 

Ég er haldin þeim leiðinlega kvilla að ég á voðalega erfitt með að sofa í flestum farartækjum þannig að ég nota tímann til að lesa, hugsa og dást að hinni fallegu fjölskyldu minni (þau eru einstaklega fögur þegar þau sofa).  Hrotubelgur hrýtur sem betur fer ekki mikið þegar hann situr uppi og TheSleapingBeuty sefur alveg jafn vel hvort sem hún liggur út af eða situr. Svo er það NotJustAPrettyFace sem sefur eins og pabbi hennar, óskaplega létt en sefur þó.

Þegar þetta er skrifað erum við sem sagt á leiðinni í lest til Bratislava og einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að við séum að fara inn í land sem ekki er jafn snyrtilegt og fallegt og Tékkland. Að sumu leyti er það rétt. Bratislava er ekki næstum eins snyrtileg og Prague, lestarstöðin var bara fyrsta merkið um það. Lyktin var vond og allt virkaði skítugra. Frown

Þegar við vorum búin að stökkva úr lestinni í Bratislava og búin að ganga um 50m kom á móti okkur gráhærður maður, kannski um sextugt, sem virkaði hinn rólegasti, hélt á gestabók með alls konar áritunum ánægðra viðskiptavina og spurði okkur hvort okkur vantaði ekki stað til að sofa á. Hann sagðist reka Hostel í grennd við járnbrautarstöðina og að hann gæti bara labbað með okkur þangað til að sýna okkur. Gestabókin var sem sagt hans markaðstæki. Við náðum auðvitað ekkert að lesa það sem þar stóð og þetta hefði getað verið hvaða tilbúningur sem var.,, Kostar bara 12.50 evrur", sem er náttúrulega bara tittlingaskítur, um 2.000 kall á mann. NotJustAPrettyFace var sko ekki aldeilis á þeim buxunum að fara bara að fylgja einhverjum karli eitthvað út í buskann, hann gæti bara verið morðingi eða þaðan af verra! Prinsessan á bauninni var á sama máli og stökk ekki bros á vör.

Við hin, áhættufíklarnir í fjölskyldunni sannfærðum þessi skynsömu um að þetta gæti nú ekki verið svo slæmt, hann gæti nú varla gert mikið við okkur fimm.  Við töltum með pokana á bakinu í halarófu á eftir þessum mjög svo sérstaka manni og komumst að því smátt og smátt að hann var hinn indælasti, vissi heilmikið um Ísland og gat frætt okkur um ýmislegt varðandi Bratislava. 

Hostelið var vægast sagt frekar ógeðfellt en við vorum orðin þreytt og nenntum ekki að finna annað Hostel þannig að við ákváðum að taka þetta. Við hentum bakpokunum inn í herbergin fengum fullt af upplýsingum hjá hinum hjálpsama Jurin (sem ég gat reyndar ekki staðið við hliðina á af því að hann var svo hræðilega andfúll. Svanhvít Sjöfn hafði á orði að það væri mikil svitafýla af honum en við tjáðum henni að þetta hefði verið andfýla og það segir ýmislegt um hvernig ilmur þetta var Sick) og örkuðum niður í gamla bæ Bratislava til að fá okkur að borða og skoða. Margt fallegt bar fyrir augu en það var orðið ansi skuggsýnt.

20120521 22422520120521 221139BrsBratislava

 

Hostelið var ekkert betra þegar við komum heim aftur Crying Ég gat ekki burstað tennurnar á klósettinu, ég varð að gera það í eldhúsinu, ég kúgaðist þegar ég pissaði (sem gerðist bara um morguninn þegar ég fór á fætur, ég hélt í mér þangað til) og þegar við komum inn í herbergi til þess að fara að sofa skutust nokkrar silfurskottur undir rúm og skáp. Yndislegt alveg hreint.

Við vöknuðum svo kl. 6 til þess að taka lestina sem átti að fara áleiðis til Banska Stiavnica í Slóvakíu. Við komum á réttum tíma og vorum ansi úldin og illa sofin en að var allt í lagi fyrir Hrotubelg, TheSleapingBeuty, NotJustAPrettyFace og Prinsessuna á bauninni þar sem þau gátu auðvitað sofnað mjög fljótlega eftir að í lestina var komið, ég aftur á móti naut útsýnisins og hins skemmtilega háværa lestarhljóðs. Þetta eru nefninlega frekar gamaldags lestir hér og manni er svolítið hent aftur í tíma. Mjög gaman. Þessi lest fór til Hronska Dubrava og tók 2 og 1/2 tíma.

 

IMG 5364Þar skiptum við svo um lest, ef lest skyldi kalla. Þetta var bara einn stakur vagn og ef það voru lestarhljóð í hinni lestinni þá voru LESTARHLJOÐ sem komu úr þessari. Tukkum tukku, tukku og það vantaði bara tjú, tjúið. Við siluðumst upp ótrúlega fagrar hlíðar, gegnum göng og upp fleiri hlíðar, þöktum trjám. Vá, hvað þetta er fallegt. Að lokum stoppaði vagninn við eldgamla lestarstöð og ekkert annað var í sjónmáli, engin hús og ekki bílar, aðeins tveir gamlir karlar sem höfðu verið með okkur í lestinni og við ákváðum að elta þá bara.

IMG 5368 

Þegar við vorum búin að ganga spölkorn fór að blasa við okkur svakalega fallegur bær sem stendur uppi í hlíðinni og niður hana.IMG 5367IMG 5402

IMG 5379

Nú var að finna Hostel 6 sem við vorum búin að panta á. Við krosslögðum fingurna í von um að það yrði skömminni skárra en það í Bratislava. Ég og Pálmi Snær löbbuðum af stað á meðan hin pössuðu bakpokana. Við löbbuðum upp í móti og leituðum og spurðumst fyrir. Okkur til mikillar ánægju talaði fólk ágæta ensku hér sem er meira en má segja um mjög marga sem hafa orðið á leið okkar í ferðinni. Við höfum ansi oft þurft að grípa til þýsku, sem virkar ekki heldur, eða bara táknmáls sem virkar alltaf. 

Við löbbuðum og löbbuðum og löööbbbuðum. Að lokum komum við að Hostel 6 sem er nánast efst í bænum og þegar ég segi efst þá er það ekkert svona efst eins og Sigtúnið á Patró heldur efst eins og KRÍUVÖTN (svona næstum því).  Eftir mikið bank og hringingar opnaði Barbora fyir okkur. Hundurinn henna Búska kom líka til dyra og þær voru alveg æði. Barbora er hress 30 ára stelpa sem rekur þetta Hostel, hún er arkitekt og er svona frekar ,,artí" týpa. Vá, hvað við vorum ánægð þegar við sáum þessi húsakynni. Við fengum okkur herbergin og ákváðum að senda leigubíl eftir hinum, það myndi ríða okkur að fullu að ganga með þungu bakpokana alla þessa leið upp í móti! 

IMG 5407 IMG 5409IMG 5403IMG 5410

Þessar myndir eru allar teknar af svölunum á Hostel 6.

Banska Stiavnica........ nafnið eitt er fallegt, hvað þá umgjörðin og bærinn sjálfur, þvílík fegurð. Banska þýðir námur,Stiavnica er sem sagt gamall námubær,elskti námubær Slóvakíu. Hingað barðist fólk og byggði þennan bæ á þessum afvikna stað sem þótti ekki kjörinn sem bæjarstæði en vegna aðstæðna og löngun í gullið og silfrið (sérsltaklega silfrið, Stiavnica er stundum kallaður Silfurbærinn) var hægt að leggja ýmislegt á sig. Þegar allt var uppurið úr námunum fluttu flestir burtu að því hefur þessi bær staðið svona í stað og ef umferðarmerki og bílar og nokkrir munir veitingastaða yrði fjarlægt væri hægt að taka upp bíómynd sem gerðist á 19. öld þarna.

Við skoðuðum mikið, löbbuðum mjög mikið, borðuðum mikið, bæði heima og á veitingastöðum, hlógum mikið og nutum lífsins mikið. Ég ætla að láta myndirnar tala sínu máli en segi enn og aftur.......ég elska Banska Stiavnica!

IMG 20120523 20274020120522 15091420120523 16052420120523 130602IMG 5440IMG 5440IMG 5446IMG 5454IMG 5462IMG 5497IMG 5480IMG 5593IMG 5613

 Kær kveðja

 20120521 220939 

Maja Rúdolf (nýja viðurnefnið mitt)

 

 


18.-21.maí Sumarhúsið í Tékklandi og ferðin til Slóvakíu

Komiði sæl og blessuð. Þegar GuðnýGígja skildi við ykkur þá vorum við stödd í bíl á leiðinni frá Prague til Wiz Khalifa (heitir víst Céska Lipa, ég var í smá stund að ná því) í Tékklandi, þar hittum við góðvin okkar Dr.Tomaash sem mamma Mamma kynntist í gegnum Intervac húsaskiptissíðuna á veraldarvefnum. Dr.Tomaash og fjölskylda eiga sumarhús í Tékklenskri sveitasælu sem þau leyfðu okkur að vera í í nokkra daga, á stað sem heitir Lazne Belohrad nánar tiltekið í Horní Nova Ves a.k.a. Grafarholtið. Það er lítið sem mamma Mamma heldur, hún VEIT! Hún vill meina það að þar sem Horni Nova Ves(Vestur Graðholt) sé í útjaðri við Lazne Belohrad að það sé svona suburbs eins og Grafarholtið í Reykjavík. Ég veit ekki hversu oft mamma Mamma hefur látið út úr sér staðhæfingar í ferðinni sem byrja einhvernvegin svona: ,,Þetta er..." eða ,,Tékkar eru..." eða ,,Jaá, svona er nefnilega..." við erum eiginlega hætt að kippa okkur upp við þetta, lítum bara á hvert annað og segjum öll í kór ,,jaaá oookei". Allavega, þegar þangað var komið mætti okkur 8 metra eiturslanga á tröppunum fyrir utan sumarhúsið, eða þannig hljómaði það á stelpunum....Snákurinn ógurlegi  eftir frekari athugun kom þó í ljós að þetta var bara smá snákur og í þokkabót var hann steindauður. Undirritaður kippti sér ekkert rosalega uppvið þetta og sparkaði snáknum útí garð - haarður!...eeekki varði það mjög lengi, því þegar inn var komið kom í ljós að þangað hafði enginn komið í einhvern tíma og köngulærnar og vefirnir sem tóku á móti okkur voru ekki beint eitthvað sem ég hef áhuga á - Já ég beið eftir að búið væri að sópa og ryksuga loftið og kipptist til og klóraði mér alls staðar áður en ég gat setist rólegur niður, svona eftir á viðurkenni ég kaaannski smáá að ég hafi verið í einhverju ímyndunarveikiskasti - mjúúúkur! Magnað hvað maður treystir oft lítið því sem maður ekki þekkir, á Íslandi getur maður velt sér uppúr grasinu eins og maður fái borgað fyrir það, en þar sem ekki var búið að slá í langan tíma fyrir utan sumarhúsið hefði mér ekki dottið í hug að vera mikið þar NEMA ég fengi borgað fyrir það. Örugglega alls kyns pöddur og aðskotadýr sem hreyðra sig um þar í leit af ungum og hressum, íslenskum og fallegum strákum. Maður er alveg í áhættuhópi. Sumarhúsið leit að öðru leiti frekar vel út, stórt, mjög gamalt og kósý. Allt hitað upp með arineldi, 1 á neðri hæðinni og 2 á þeirri efri. Við komum okkur öll fyrir í einu og sama herberginu til að halda sem bestum hita á nóttunni, það var fínt...eða mér fannst það allavega - var reyndar alltaf vakinn á nóttunni, freekar þreytt! ,,Pálmi Snær, snúðu þér á hliðina, ég get ekki sofið útaf hrotum", heeeh obbossí :)

Já, við komum okkur semsagt fyrir og elduðum þessa svona líka dýrindiskjúklingamáltíð ,við erum alltaf að missa okkur í súpermörkuðunum þannig maður þarf alltaf að vera extraduglegur að drekka 100krónubjórinn - erfitt líf! Eftir það sátum við við arineldinn og spjölluðum og höfðum það gott

Kósý við arininn

 sumir drukku rauðvín, aðrir 100krónubjór, enn aðrir gin&tonic og mamma Mamma...hún drakk sko 50/50 Malibú í kók, hún nennti nefnilega ekki að bera bæði ginflöskuna oog malibúflöskuna sem keyptar voru í fríhöfninni í Tékklandi á skítogkanil - you've gotta love Eastern Europe.

Svanhvít Sjöfn að fíla Austur- Evrópu

 

 

 

 

 

 

 

 

AAAAAAAAAAFMÆLIS STELPA!!! 

Afmælisstelpa 

19.maí er runninn upp, GuðnýGígja er orðinn 22 ára og það eru aldeilis hátíðarhöld í Tékklandi. Við Gígja röltum svo u.þ.b. 3 km niðrí bæ, settumst niður og fengum okkur kaffi. Mamma Mamma, Prinsessan á bauninni og Svanhvít komu svo nokkru seinna eftir að hafa farið út að hlaupa í góða veðrinu. Þau komu syngjandi afmælissönginn færandi hendi - með þessa svona líka glæsilegu afmælisgjöf !! Blómasnúningsþyrludót oog sólgleraugu...sem GuðnýGígja reyndar setti á sig þá en hefur ekki fengið að nota síðan, þar sem ég stal þeim, hehe sólgleðaugnastelaðapðaakkaði! :)

Veðrið var eftirfarandi: sól og blíða og 22° hiti - namm!

Við ákváðum að kíkja í bæ skammt frá sem heitir Jicín, en þangað var komið komumst við að því að við hittum akkúrat á einhverja bæjarhátíð þar sem allt frá gömlu dögunum var sýnt, matur, tónlist og hlutir...við vorum alveg inní þessu! ;)

 Hátíð

Nú var kominn tími til að skoða sirka eitt stykki kastala, sem heitir Zamek Hradek U Nechanic og þar bjó fólk ennþá fyrir um 50 árum, gaddem hvað þetta var stórt og flott, en þar máttum við ekki taka neinar myndir þannig þið verðið kæru lesendur að bíta í það súra epli að sjá kastalann aðeins að utan, en þið megið endilega ímynda ykkur hvernig þetta leit út að innan....

Kastalinn 

En já það var aðeins hægt að fara og skoða ef maður færi í svona túr með leiðsögumanni og í okkar túr var leiðsögustelpa, við 5 og svo eitthvert tékknekst par, þau voru krúttleg. Leiðsögustelpan talaði ekki ensku en við fengum svona bæklinga til að lesa meðan við færum í gegnum kastalann, strákurinn talaði góða ensku og var svona líka mjög hjálpsamur og sagði okkur margt skemmtilegt sem leiðsögustelpan sagði þeim á tékklensku. Það sem okkur fannst skemmtilegast við þessa kastalaferð voru samt RISAinniskórnir sem við þurftum að fara í yfir skóna okkar, sem við skautuðum á í gegnum kastalann, held þetta hafi verið gert til þess að að þurfa ekki að skúra alla daga..plús það að þeir eru svakalega lekkert! :)

 Kastalaskórnir

Um kvöldið fórum við út að borða á þessum æðislega stað sem við kjósum að kalla Mylluna, ótrúlega flottur staður og fínn matur.

 Myllan

 Eftir dýrindismáltíð fóru mamma og pabbi heim en við krakkarnir ákváðum nú víst að Gígja átti afmæli og það var laugardagur að svooleiðis skella okkur út á lífið. Og aldeilis það sem við djömmuðum, á eina staðnum þar sem einhver var voru allir að horfa á Heimsmeistarakeppnina í íshokkí. Það var svaka stuð ...

Morguninn eftir vöknuðum við í svaka brunch, mammaMamma var búin að elda eggjahræru, steikja beikon og pulsur og endalaus gleði. Svo keyrðum við til Jicín og fórum í sund, þó var meiri tíma varið í að liggja á bakkanum en að busla í þessari allra flottustu sundlaug sem ég hef farið í , því hún var skíítköld! Við fórum reyndar nokkrar ferðir í rennibrautinni, það var gaaaman.

 

Plammi og Svansý sætilætiGígja að sóla sig!

JEEEEIJ!


Eftir að við vorum búin að hafa það náðugt þarna í 25° hita í rúma 2 tíma ákváðum við að fara og skoða Bohemian Paradise eins og það er kallað. Þar löbbuðum við á milli trjánna, upp á milli svakalega fallegra saltsteinakletta. Mamma og pabbi löbbuðu styttri leið en við krakkarnir þar sem mamma Mamma var svo slæm í mjöðminni eftir þessi svakalegu morgunhlaup (en hún er orðin góð núna).

Ripp, Rapp og RuppMamma og Pabbi sæt

Bohemian Pradise

 

Við fórum svo heim og mamma Mamma eldaði fyrir okkur mat úr öllu sem til var í ísskápnum til að klára matinn og spara peninga, þeetta var mjöög gott og ég vildi að það hefði verið til meira af þessu. Ein kartafla, hálf sæt kartafla, beikon, kjúklingaskinka, 5 egg og einhverjir ostar, klikkað!

 Sullubullukvöldmatur!

GuðnýGigja og Svanhvít Sjöfn ákváðu leggja sig aðeins eftir matinn...þær sváfu þangað til morguninn eftir, fengu sirka 12 tíma svefn, þarílagi! Ég og pabbi vorum ennþá helvíti svangir þannig við skelltum okkur út í einn bjór og smaá bita, lentum meira en að segja á smá hljómsveitaræfingu - ekki slæmt!

Vöknuðum mjög snemma morguninn eftir, áttum eftir að pakka niður og ganga frá eftir okkur. Eftir að ég var búinn að rúlla gin- og malibuflöskunni uppí handklæði og troða eim ofan í bakpoka datt Svanhvíti það snilldar ráð í hug þar sem glerið væri þungt og hætta á því að það myndi brotna að við skildum færa alkahólið yfir í plastvatnsflöskur. Sniiillingur! Eftir þessa klikkuðu hugmynd fékk hún viðurnefnið : Svanhvít ,,NotJustAPrettyFace" Sjöfn.

Jæja nú lág leið okkar til Brno þar sem við þurftum að skila bílnum á Hertz á réttum tíma, við eyddum síðan deginum í Brno þar sem ég og Gígja t.d. smökkuðum Kebab í fyrsta skipti, GuðnýGigja skilur ekki af hverju þetta heitir ekki bara Píta þar sem þetta er eiginlega bara nákvæmlega sama system?!? Við krakkarnir skelltum okkur uppí einhverja flotta kirkju þar sem við sáum vel yfir bæinn, svo röltum við bara um, sátum á kaffihúsi og ræddum hvað gera skildi. Við tókum síðan lest frá Brno til Bratislava í Slóvakíu og þar ætla ég að skilja við ykkur kæru lesendur.

Kveðja frá Slóvakíu. Pálmi ,,Hrotubelgurinn" Snær sem heldur vöku fyrir allri fjölskyldunni...tjah, nema kannski Guðnýju ,,TheSleepingBeauty" Gígju sem alls staðar getur sofið. Þangað til næst! ;)

Pálmi ,,Hrotubelgurinn 


Fyrstu dagarnir. London og Prague.

ATH: Bloggin eru stundum skrifuð degi eða nokkrum áður en færi gefst til að setja það hér inn. 

Við heilsum ykkur kæra fjölskylda, vinir og kunningjar nú með okkar fyrsta bloggi úr þessu 24 daga ferðalagi um Austur-Evrópu... og smá London. 

 

Ferðalagið byrjaði kl. 6. á þriðjudagsmorgun þegar haldið var af stað á bílnum hjá ömmu og afa upp á Keflavíkuflugvöll með 5 bakpoka, samanlagt 63 kg að vopni, já og einn litinn gítar sem ber nafnið Bósi Gítár (skírður af 3 ára strákum).


  Mamma var ekki lengi að fá sína ferðalaga nafnbót en aðeins 5 mínútum eftir að við lögðum af stað frá Garðabæ stoppaði mamma bílinn og fórnaði sér í miðjusætið aftur í bílnum þar sem við fundum ekki beltið þar sem Svanhvít átti upphaflega að sitja. ,,NEI, ég sit þá þar!" Gat þetta verið mikið meira mömmulegt? - Þess vegna fær mamma nafnbótina; Mamma.

Mamma Mamma að fórna sér

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En jæja, við tékkuðum okkur inn sem gekk sinn vanagang, fyrir utan kannski eitt mjög skemmtilegt móment sem undirstrikar það hversu mikið við erum í túristahlutverkinu, því starfsmaður flugvallarins, í Keflavík, á Íslandi ávarpaði okkur á ensku þar sem hann bauð okkur að vera næst í röðinni. ,,You can just go a head and check in here", sagði hann og leit á okkur. Ég var nýbúin að heyra hann tala íslensku og leit því í kringum mig í leit af einhverju öðru fólki sem hann gæti mögulega verið að tala við. Ég sá enga nema fjölskyldumeðlimi mína, svo ég sagði bara;, Uuuu...jájá?" En Svanhvít leit á hann og sagði;, Við erum sko öll íslensk". Strákurinn í fínu flugvallarstarfsmanna-jakkafötunum sínum var ekki lengi að svara og sagði ,, Yes, but I´m English". - GÓÐÖÖR!

 

                                                                     4 af 5 bakpokunum 

 

 

Þegar við lentum í London á Gatwick flugvelli eftir alveg hreint indæla flugferð, þá sérstaklega af minni og Pálma hálfu þar sem við vorum ábyggilega bara vakandi svona 3 mínútur alla leiðina, þá var haglél! JEYJJ! Við víkingarnir lifðum það svosem af, nema mamma mamma var reyndar næstum flogin á hausinn í hálkunni á leið út úr vélinni því hún var á mjög svo sleipum sandölum. Við tókum lest að hostelinu sem mamma Mamma var búin að panta fyrir okkur þar sem við gistum í svo kölluðu dorm-i.. eða vist. En þar voru 3 kojur, við krakkarnar komum okkur fyrir í 3 efri, mjög svo brakandi kojunum og mamma, pabbi og einhver enskur hermaður í námi voru í þeim neðri. Afar indælt að deila herbergi með 5 manna fjölskyldu frá Íslandi örugglega;) Pabbi tók sig vel út og hefur fengið sína ferða-nafnbót; Prinsessan á bauninni enda þekktur fyrir lítt annað en að vera með hinar ólíklegustu aðfinnslur varðandi svefn-stæði og umhverfi í gegnum tíðina.

 

Í dorm-inu.

 

 Prinsessan á bauninni

 

Eftir að við tjekkuðum okkur inn á hostelið fórum við í leit að æti og enduðum á bar þar sem við gæddum okkur á samloku. Ekkert svo góðri samt, og ekkert svo ódýrri heldur. London er dýr. Þessi 28 tíma London snúningur okkar einkenndist síðan aðallega á einhverju vappi í leit að fæði, klósettum, réttum lestum og rútu. Jú, og við sáum líka Buckingham Palace. Það var géðveikt! - Eins og sjá má á þessari mynd.

Svaka stuuuuuuð! 

Það sem stóð upp úr í allri London ferðinni var feiti, mjóróma, mjög svo bresku-mælandi rútubílstjórinn á leið út á flugvöll. Hann var með uppistand bæði áður en við lögðum af stað og svo rétt áður en við komum upp á flugvöll, við góðar undirtektir okkar ferðalanganna. Mjög fyndið.

 

Reyna að vera eins flippuð og fyndin eins og rútubílsstjórinn 

 

Við lentum í Prague um kl. 22 á staðartíma. Við vorum svo heppin að fólkið sem lánaði okkur íbúðina sína Í Prague ( í gegnum Intervac... þau munu einnig fá okkur íbúð í Garðabæ að láni í júlí ) sóttu okkur á flugvöllinn. Indæl stelpa sem var hörð á því að vera 22 ára ( samt fædd 1988?? ) með áberandi fallegt, sítt hár niður á rass og krúttlegi pabbi hennar sem talaði lítið sem enga ensku vísuðu okkur í 7 manna bíl þar sem leið okkar lá í ,,Pent-house" íbúðina sem við myndum gista í næstu 2 nætur.

 

Túrista-nördar með krútt fólki:) 

Íbúðin var svona: Hún var í kjallara í gamalli, illa farinni blokk, hún var mjög lítil, mikil fúkkalykt, enginn hiti og prumpulykt í ísskápnum. Sumir höfðu orð á því að þetta væri algjört hreysi... en við komumst þó öll að þeirri niðurstöðu að móttökurnar og velvild fólksins sem átti hana vóg upp á móti ástandi íbúðarinnar. Við bjuggumst heldur ekki við miklu, enda allt annar standard hér í landi en við erum vön. Fólkið sjálft býr heldur ekki í þessari íbúð heldur býr það úti á landi en notar hana þegar þau eru í borginni. Eftir að við kvöddum feðginin sem áttu um 5 klukkutíma akstur í vændum ( ég veit...þau voru mjög indlæl .) fórum við út í super-markað sem heitir Tesco sem var í nokkurra metra fjarlægð frá okkur og er víst stærsti sinnar tegundar hér í landi. Hann var líka mjög stór!..og það sem meira skiptir máli.. með mjööög ódýran bjór! Feðginin voru búin að segja okkur að bjórinn væri mjög ódýr hér í Tékklandi en við sögðumst ekki trúa þeirri upphæð fyrr en við myndum sjá það með eigin augum. - Til að gera langa sögu stutta þá höfum við krakkarnir ákveðið að flytja til Tékklands í haust enda vístitalan okkar oftar en ekki mæld í bjór. - DÍÍÍÍJÓÓÓK! ( or is it? ) Við misstum okkur svolítið í Tesco og keyptum 3 fulla poka af ostum, víni, bjór og morgunmat. Alveg ferlega grand á því í fínu íbúðinni okkar=) Matur og áfengi er mjög ódýrt hér í Tékklandi, það er nokkuð ljóst.

Í ,,nammi 

 

Við vöknuðum frekar snemma daginn eftir og tókum tram niður í bæ. Það var frekar kalt, en sem betur fer höfðum við vit á því að taka með okkur nokkrar hlýrri flíkur. Hitinn fór þó hækkandi með deginum og þegar þetta er skrifað, deginum eftir er komin 17 stiga hiti.. og á að hækka ennþá meira með dögunum=)

 Vel klædd í traminu á leið í gamla bæinn

 

Vá, vá, VÁ hvað Prague er falleg borg! Án efa sú fallegasta sem ég, undirrituð hef séð og tel ég mig nú alveg hafa séð nokkrar fallegar borgir. Við eyddum síðan restinni af deginum í að skoða bæinn, setjast niður hér og þar, sötra ódýran bjór, borða og spjalla saman. Ótrúlega notalegt. 

Nema kannski eitt...

 

Sagan um þegar bókstaflega var gefinn skítur í okkur

Einu sinni vorum við fjölskyldan í Prague og þá kom allt í einu ein dúfa í vígahug, flaug yfir okkur og miðaði með rassinum á mig, mömmu, Pálma, Svanhvíti og pabba og og kúkaði á okkur öll.  Nema pabba sem var í skjóli undir sólhlíf.

Við elskum ekki dúfur lengur, enda lyktuðum við af dúfuniðurgangi restina af deginum. Þetta var grænt, lint, og illa lyktandi.

 

Endir.

 

 STAY AWAAAAAAY!!!

Heimska dúfa

Á Charles Bridge sem er alveg ótrúlega glæsileg með undurfögru útsýni yfir stóru glæsibyggingarnar á hæðunum í kring og á nærliggjandi árbakkum árinnar Vlava sáum við mjög skemmtilega götu-tónlistarmenn sem heilluðu margan manninn upp úr skónum með skemmtilegum hljóðfæraleik, söng og gleði en einna helst vakti aldursforseti hljómsveitarinnar athygli en hann spilaði með einskærri einlægni og snilld á þvottabretti og notaði til þess bæði píska og einhversskonar fingurbjargir. Ótrúlega skemmtilegt. Nokkrum klst síðar, þegar við löbbuðum brúna til baka var komin maður sem spilaði m.a. slagara með Janis Joplin á vínglös. Mjög gaman að sjá og heyra.

 

Mamma Mamma og pabbsi á Charles Bridge

 

 

Við enduðum mjög yndislegan dag í ótrúlega fallegri borg á því að borða alveg hreint ágætan mat á pizza stað í miðbænum en það tók hvorki meira né minna en klukkutíma að finna stað þar sem, takið eftir, voru veitingastaðir að meðaltali á tveggja metra millibili. En það var vegna þess að suuuumir, sem áttu að velja hvar við myndum borða í þetta skiptið ( pabbi, aka. prinsessan á bauninni ) voru með valkvíða og ráfuðum við því í halarófu á eftir honum á milli hvers staðarins á fætur öðrum en enduðum svo á þessum tiltekna pizzastað. Við tókum síðan tram-ið heim og fórum tiltölulega snemma í rúmið. Í morgun vöknuðum við missnemma. Mamma mamma, Svanhvít, Pálmi og að sjálfsögðu Prinsessan á bauninni vöknuðu við fyrsta ,,hanagal", eldsnemma um morguninn en það voru semsagt einhverjar viðgerðir í gangi á fínu blokkinni sem skapaði mjög, mjög mikinn hávaða... Eða það heyrðist mér á öllu... ég svaf hin værasta, rumskaði aðeins við Svanhvíti og mömmu sem stóðu yfir mér og undruðu sig á því af hverju í ands******* ég væri ekki búin að vakna við þennan óhemju háváða sem ómaði um allt.. enda var verið að bora með steinbor og lamið með sleggju í veggina fyrir utan íbúðina. Pabbi og Pálmi tróðu í sig eyrnatöppum og reyndu að kúra sér lengur sem gekk svona upp og ofan. - Það voru allir komnir á fætur um 10 leytið en þá voru mamma og Svanhvít farnar í uppáhaldsbúðina okkar, Tesco að versla fyrir nokkurra daga dvöl í sumarhúsi sem við redduðum okkur í gegnum Intervac síðuna. Pabbi og Pálmi fóru að ná í bílaleigubíl og ég fór á kaffihús að gera skrifa þetta tiltekna blogg.

 

Nú erum við í bílnum á leið í sumarhúsið, nálægt Lazne Bolorad sem er 1 og hálfum tíma norð-austan við Prague. Ferðin á sér skemmtilegt upphaf og erum við bara spennt að sjá hvað framhaldið hefur í för með sér, horfum nú dreymandi út um glugga bílsins, raulum með kunnugri tónlist úr Ipodnum hennar Svanhvítar sem við stilltum við útvarp bílsins á milli þess sem Pálmi vísar pabba veginn úr GPS-tækinu. Mömmu mömmu var vísað frá störfum við það hlutverk og hent í aftursætið, í þetta skiptið, ósjálfviljug.

 

 

Þangað til næst,

GuðnýGígja eyðslukló.

 Ferðalína afmælisbarn og Bósi Gítár.

 

( Ég er semsagt búin að vera að lifa ansi ,,dýrt" hérna í Tékklandinu þar sem ég hef keypt mér meira af vatni en bjór sem stundum hefur verið dýrara. ,, Það er aldeilis verið að leyfa sér" segja þá hinir í gamni - Ho ho ;) )


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband