21. - 25. maí. Slóvakía
27.5.2012 | 21:34
Þar sem Pálmi Hrotubelgur Snær skildi við ykkur tek ég, mamma Mamma, við ,,pennanum".
Flugferðir, bílferðir og lestarferðir hafa allar gengið mjög vel og verið hinar skemmtilegustu. Þó ekki á þann veg sem þið líklega ímyndið ykkur, öll fjölskyldan í rosa stuði að syngja og tralla eða í einhverskonar ferðaleikjum. Ó nei..........
Smá sýnishorn:
Ég er haldin þeim leiðinlega kvilla að ég á voðalega erfitt með að sofa í flestum farartækjum þannig að ég nota tímann til að lesa, hugsa og dást að hinni fallegu fjölskyldu minni (þau eru einstaklega fögur þegar þau sofa). Hrotubelgur hrýtur sem betur fer ekki mikið þegar hann situr uppi og TheSleapingBeuty sefur alveg jafn vel hvort sem hún liggur út af eða situr. Svo er það NotJustAPrettyFace sem sefur eins og pabbi hennar, óskaplega létt en sefur þó.
Þegar þetta er skrifað erum við sem sagt á leiðinni í lest til Bratislava og einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að við séum að fara inn í land sem ekki er jafn snyrtilegt og fallegt og Tékkland. Að sumu leyti er það rétt. Bratislava er ekki næstum eins snyrtileg og Prague, lestarstöðin var bara fyrsta merkið um það. Lyktin var vond og allt virkaði skítugra.
Þegar við vorum búin að stökkva úr lestinni í Bratislava og búin að ganga um 50m kom á móti okkur gráhærður maður, kannski um sextugt, sem virkaði hinn rólegasti, hélt á gestabók með alls konar áritunum ánægðra viðskiptavina og spurði okkur hvort okkur vantaði ekki stað til að sofa á. Hann sagðist reka Hostel í grennd við járnbrautarstöðina og að hann gæti bara labbað með okkur þangað til að sýna okkur. Gestabókin var sem sagt hans markaðstæki. Við náðum auðvitað ekkert að lesa það sem þar stóð og þetta hefði getað verið hvaða tilbúningur sem var.,, Kostar bara 12.50 evrur", sem er náttúrulega bara tittlingaskítur, um 2.000 kall á mann. NotJustAPrettyFace var sko ekki aldeilis á þeim buxunum að fara bara að fylgja einhverjum karli eitthvað út í buskann, hann gæti bara verið morðingi eða þaðan af verra! Prinsessan á bauninni var á sama máli og stökk ekki bros á vör.
Við hin, áhættufíklarnir í fjölskyldunni sannfærðum þessi skynsömu um að þetta gæti nú ekki verið svo slæmt, hann gæti nú varla gert mikið við okkur fimm. Við töltum með pokana á bakinu í halarófu á eftir þessum mjög svo sérstaka manni og komumst að því smátt og smátt að hann var hinn indælasti, vissi heilmikið um Ísland og gat frætt okkur um ýmislegt varðandi Bratislava.
Hostelið var vægast sagt frekar ógeðfellt en við vorum orðin þreytt og nenntum ekki að finna annað Hostel þannig að við ákváðum að taka þetta. Við hentum bakpokunum inn í herbergin fengum fullt af upplýsingum hjá hinum hjálpsama Jurin (sem ég gat reyndar ekki staðið við hliðina á af því að hann var svo hræðilega andfúll. Svanhvít Sjöfn hafði á orði að það væri mikil svitafýla af honum en við tjáðum henni að þetta hefði verið andfýla og það segir ýmislegt um hvernig ilmur þetta var ) og örkuðum niður í gamla bæ Bratislava til að fá okkur að borða og skoða. Margt fallegt bar fyrir augu en það var orðið ansi skuggsýnt.
Hostelið var ekkert betra þegar við komum heim aftur Ég gat ekki burstað tennurnar á klósettinu, ég varð að gera það í eldhúsinu, ég kúgaðist þegar ég pissaði (sem gerðist bara um morguninn þegar ég fór á fætur, ég hélt í mér þangað til) og þegar við komum inn í herbergi til þess að fara að sofa skutust nokkrar silfurskottur undir rúm og skáp. Yndislegt alveg hreint.
Við vöknuðum svo kl. 6 til þess að taka lestina sem átti að fara áleiðis til Banska Stiavnica í Slóvakíu. Við komum á réttum tíma og vorum ansi úldin og illa sofin en að var allt í lagi fyrir Hrotubelg, TheSleapingBeuty, NotJustAPrettyFace og Prinsessuna á bauninni þar sem þau gátu auðvitað sofnað mjög fljótlega eftir að í lestina var komið, ég aftur á móti naut útsýnisins og hins skemmtilega háværa lestarhljóðs. Þetta eru nefninlega frekar gamaldags lestir hér og manni er svolítið hent aftur í tíma. Mjög gaman. Þessi lest fór til Hronska Dubrava og tók 2 og 1/2 tíma.
Þar skiptum við svo um lest, ef lest skyldi kalla. Þetta var bara einn stakur vagn og ef það voru lestarhljóð í hinni lestinni þá voru LESTARHLJOÐ sem komu úr þessari. Tukkum tukku, tukku og það vantaði bara tjú, tjúið. Við siluðumst upp ótrúlega fagrar hlíðar, gegnum göng og upp fleiri hlíðar, þöktum trjám. Vá, hvað þetta er fallegt. Að lokum stoppaði vagninn við eldgamla lestarstöð og ekkert annað var í sjónmáli, engin hús og ekki bílar, aðeins tveir gamlir karlar sem höfðu verið með okkur í lestinni og við ákváðum að elta þá bara.
Þegar við vorum búin að ganga spölkorn fór að blasa við okkur svakalega fallegur bær sem stendur uppi í hlíðinni og niður hana.
Nú var að finna Hostel 6 sem við vorum búin að panta á. Við krosslögðum fingurna í von um að það yrði skömminni skárra en það í Bratislava. Ég og Pálmi Snær löbbuðum af stað á meðan hin pössuðu bakpokana. Við löbbuðum upp í móti og leituðum og spurðumst fyrir. Okkur til mikillar ánægju talaði fólk ágæta ensku hér sem er meira en má segja um mjög marga sem hafa orðið á leið okkar í ferðinni. Við höfum ansi oft þurft að grípa til þýsku, sem virkar ekki heldur, eða bara táknmáls sem virkar alltaf.
Við löbbuðum og löbbuðum og löööbbbuðum. Að lokum komum við að Hostel 6 sem er nánast efst í bænum og þegar ég segi efst þá er það ekkert svona efst eins og Sigtúnið á Patró heldur efst eins og KRÍUVÖTN (svona næstum því). Eftir mikið bank og hringingar opnaði Barbora fyir okkur. Hundurinn henna Búska kom líka til dyra og þær voru alveg æði. Barbora er hress 30 ára stelpa sem rekur þetta Hostel, hún er arkitekt og er svona frekar ,,artí" týpa. Vá, hvað við vorum ánægð þegar við sáum þessi húsakynni. Við fengum okkur herbergin og ákváðum að senda leigubíl eftir hinum, það myndi ríða okkur að fullu að ganga með þungu bakpokana alla þessa leið upp í móti!
Þessar myndir eru allar teknar af svölunum á Hostel 6.
Banska Stiavnica........ nafnið eitt er fallegt, hvað þá umgjörðin og bærinn sjálfur, þvílík fegurð. Banska þýðir námur,Stiavnica er sem sagt gamall námubær,elskti námubær Slóvakíu. Hingað barðist fólk og byggði þennan bæ á þessum afvikna stað sem þótti ekki kjörinn sem bæjarstæði en vegna aðstæðna og löngun í gullið og silfrið (sérsltaklega silfrið, Stiavnica er stundum kallaður Silfurbærinn) var hægt að leggja ýmislegt á sig. Þegar allt var uppurið úr námunum fluttu flestir burtu að því hefur þessi bær staðið svona í stað og ef umferðarmerki og bílar og nokkrir munir veitingastaða yrði fjarlægt væri hægt að taka upp bíómynd sem gerðist á 19. öld þarna.
Við skoðuðum mikið, löbbuðum mjög mikið, borðuðum mikið, bæði heima og á veitingastöðum, hlógum mikið og nutum lífsins mikið. Ég ætla að láta myndirnar tala sínu máli en segi enn og aftur.......ég elska Banska Stiavnica!
Kær kveðja
Maja Rúdolf (nýja viðurnefnið mitt)
Athugasemdir
Sæl öll!
Takk fyrir skemmtilegan ferðapistil eina ferðina enn . Þetta hlýtur að vera mjög gaman og mikil upplifun. Allt gott héðan. Flott veður undanfarna daga og góð spá framundan. Í dag er glampandi sólskin og um 18-20 gr. hiti.
Spurning til Prinsessunar; Crusierinn er kominn framyfir km. í smur- og þjónustuskoðun hjá Toyota. Viltu að ég noti tímann og fari meða hann? Sendu mér SMS.
Við hlökkum til að næstu færslu frá ykkur.
Kv. Pabbi og mamma, afi, amma og tengdó.
Ragnar Jörundsson (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 10:18
ENN OF AFTUR sit ég með súran svip! óóógeðslega græn af öfund! :)
Ég eeelska að lesa bloggin frá ykkur! OG váváVÁ hvað þetta lítur út fyrir að vera frábært!!
Hlakka samt til að fá ykkur heim :)
Knús og Kram
Helga
Helga Sara (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 14:15
Dásamlegt blogg en myndaþátturinn í byrjun gerði alveg útaf við mig, LOL!!! :D
Klara (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 15:17
Vááá, hvað hlýtur að vera gaman hjá ykkur! Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar + þessar frábæru myndir. Haldið áfram að njóta og njóta :-)
Knús og kossar
Gugga
Gugga (IP-tala skráð) 29.5.2012 kl. 21:57
Algjör dásemd!
Jörundur (IP-tala skráð) 4.6.2012 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.