Gleðilega páska!
9.4.2007 | 12:00
Já, ég vissi það!! Ég er drullulélegur bloggari, en ætla aðeins að reyna að bæta úr því núna.
Við komum frá Skotlandi 5. apríl og fórum beint af flugvellinum í fermingarveislu á Selfossi og þaðan beint vestur. Vorum komin um hálf tvö eftir miðnætti. Guðný Gígja og Pálmi Snær komu með en Svanhvít Sjöfn varð eftir af því að þær stelpurnar eru að keppa til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Þær unnu Keflavík á laugardaginn þannig að nú þurfa þær bara að vinna leikinn á þriðjudaginn og þá verða þær Íslandsmeistarar aftur!!!! Koma svo stelpur!!! Verst að geta ekki verið á leiknum
Skotlandsferðin var draumur í dós! Við lentum í Glasgow þann 30. mars og bókuðum okkur strax inn á hótelið. Síðan lá leið niður í bæ og við fengum okkur að borða á ítölskum veitingastað ,,Bella Italia", fínn staður! Sátum þar og stútuðum einni rauðvínsflösku og spjölluðum. Voða næs! Síðan gengum við um bæinn og versluðum aðeins, ég komst á bókaútsölu og keypti mér þrjár kiljur, Skjöldur var aftur á móti í hálfgerðum vandræðum eins og oft áður....... sko með klósettleysi. Hann hljóp eins og brjálaður maður (og þið getið ímyndað ykkur holninguna á honum) til þess að reyna að finna klósett!!! Honum verður svo óskaplega oft brátt í brók, greyinu!!!! Alveg merkilegt, sérstaklega þegar við erum að ferðast. Ég ætla ekkert að vera að telja upp hvert einasta skipti sem við (hann) lentum í þeim aðstæðum að þurfa að þjóta upp til handa og fóta til að finna klósett, en þau voru ansi mörg! En þetta reddaðist hjá honum og hann fann mig aftur að lokinni klósettferð, ég var ennþá inni í bókabúð.
Við borðuðum dýrindis kvöldverð á hótelinu og fórum snemma að sofa....já snemma!! Kl. 20.30 var ég farin að hrjóta!! Við töluðum nú um að það væri ekkert að marka því við höfðum sofið svo lítið nóttina áður, en viti menn, þetta var svona alla ferðina. Ég hef aldrei á ævinni farið svona snemma að sofa mörg kvöld í röð!!! Eeeeeen það var ljúft!
Daginn eftir þurftum við að fara og ná í bílaleigubíl því ferðinni var heitið eitthvað út í buskann. Það reyndist ekki eins auðvelt og við höfðum gert ráð fyrir því að konan á bílaleigunni vildi bara alls ekki taka ökuskírteinin okkar gild! Við erum reyndar ennþá með þessi bleiku gömlu en það var búið að tjá okkur það á Fróni að þau væru tekin gild. Oj hvað hún var leiðinleg en... ,,nóta bene" eina leiðinlega manneskjan sem við töluðum við alla ferðina. Við fórum þá í fússi á aðra bílaleigu og allt gekk eins og í sögu þar!! Keyrðum af stað á litlu rauðu púddunni og það lá við að Skjöldur Pálmason andaðist!! Hann fór í þvílíka oföndun af stressi að ég hélt að hann myndi gefa upp öndina Að keyra í vinstri umferð í fyrsta skipti og það í stórborg...ó mæ godd!! Það hafðist þó allt saman og okkur fannst við mjög ,,cool á ðí" það sem eftir lifði ferðar.
Frá Glasgow fórum við norður á bóginn. Við fórum upp með Loch Lohman, vorum mjög heppin með veður 14 stiga hiti og sól. Þaðan keyrðum við áfram norðvestur í þorp sem heitir Ballachullish (ég held að það sé skrifað svona). Þar fundum við okkur Bed and breakfast og komum okkur fyrir þar. Fórum síðan að labba um. Rosalega fallegur staður. Við skelltum okkur á ,,lókal pöbbinn" og þar voru ,,lókal" fyllibyttur eins og alls staðar. Æi hvað vínið getur farið illa með fólk. Allir voða vingjarnlegir eins og alls staðar þar sem við komum.
Daginn eftir fórum við af stað um 9 til þess að keyra aftur suður á bóginn, en í þetta skiptið í suðvestur í átt til Edinborgar. Þar lá leiðin suður fyrir Edinborg þar sem við vorum búin að panta okkur herbergi í kastala. Ferðin gekk vel, við stoppuðum hér og þar því að veðrið var svo gott og fengum okkur auðvitað reglulega að borða, það má ekki gleyma því, höhömm!!
Kastalinn var VÁ! Svakalega gamall, frá því um 1100 og er elsta hús sem búið er í á Skotlandi. Hann heitir Traquair kastali og lítur svona út:
Þetta var ævintýri og okkur leið eins og við værum komin aftur í tímann þarna inni. Set inn myndir síðar. Við sváfum þarna eina nótt og höfðum það æðislega gott. Löbbuðum um í skóginum og hittum skartgripagerðarmann sem var að smíða skartgripi með keltnesku mynstri. Skjöldur keypti hálsmen handa mér, ógurlega flott!!
Við fórum þaðan til Edinborgar og það er falleg borg! Miklu fallegri en Glasgow. Þar vorum við í 2 nætur borðuðum, drukkum , skoðuðum, sváfum o.s.frv. rosa fínt. ´
Ég verð nú samt að segja frá því þegar við vorum að keyra inn í borgina og reyna að finna hótelið. Það var staðsett í miðri borg´nánar tiltekið í götunni fyrir ofan aðalgötu Edinborgar, Princes street. Við fundum leiðina og vorum að kafna úr stressi, sérstaklega Skjöldur sem var í þann mund að fá oföndunarkast aftur, þurftum að finna götu til þess að keyra upp úr aðalgötunni og jú við fundum hana, vorum rosa glöð, ég brosti og varð litið til hliðar, þurfti þá að líta upp því það var strætó við hliðina á mér, bílstjórinn brosti og hristi hausinn, ég brosti á móti svolítið hissa á að hann væri ekki að dáðst að því hve dugleg við værum, mér varð litið á malbikið, æ, æ, þar stóð: Only for buses!!!! Við vorum þá þarna á rauðu púddunni, umkringd strætisvögnum og bílstjórar þeirra hristu bara hausinn. Oh, hvað þetta var gaman. Við hlógum mikið! En hallærislegt um leið!
Frábær ferð! Set inn myndir bráðum
Kveðja,
Maja
Athugasemdir
Þetta hefur verið geggjuð ferð......ég sé ykkur í anda þarna á rauðu púddunni? Skjöldur hefur ekkert þurft á klósett þegar hann sá alla strætóana.......heeh..eeehe..
Dísa (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.