Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Króatía - Svanhvít Sjöfn

Heil og sæl kæra fjölskylda, vinir og þið hin sem eruð hvorki fjölskylda né vinir.

 

Ég heilsa(blogga) ykkur héðan úr húsbílnum okkar góða sem við sóttum á flugvöllinn í Zagreb. Húsbíll...hljómar eitthvað sem aðeins fólk sem lifað hefur þrisvar sinnum lengur en við unga fjölskyldan notast við. Jú, mikið rétt. Fyrstu nóttinni okkar í húsbílnum eyddum við á tjaldstæði við Plitvice National Park í Króatíu. Þegar við keyrðum inn á svæðið leit í fyrstu út eins og við værum ógeðslega sniðug að vera á "low-seasoni", lítið væri um troðning og að við værum eina fjölskyldan sem væri ferlega flott'áði á húsbíl. Ooooneeeeiii, við keyrðum inní húsbíla veröld þar sem 90% mannskapsins var á húsbílum, 89% þeirra voru Þjóðverjar og 88% Þjóðverjanna voru 70 ára + ! Þarna sá maður nýjar tegundir af lúxus tjald-hægindastólum, allskyns sólhlífar, útilegu tæki og tól og allir voða glaðir með bros á vör að tæma ,,klósettin" sín í angandi klóakfílu. Við settum okkur nú þá reglu strax að það væri bannað að kúka í húsbílaklósettið okkar, jahh nema um neyðartilfelli væri að ræða(það tók pabbi fram strax, þ.e.a.s. neyðartilfellið). Allt var til alls á tjaldstæðinu, fáránlega hrein og fín klósett og sturtur þar sem Þjóðverjarnir snyrtilegu stóðu sveittir við að moppa, skafa og hreinsa eftir sig...þetta ættu Íslendingar að taka sér til fyrirmyndar. Ég var t.d. bara í blússandi sælu eftir að hafa farið á klósettið á tjaldsvæðinu af því að það var allt svo snyrtilegt. Kom skælbrosandi til baka þar sem restin af fjölskyldunni rökræddi um hvar best væri að leggja húsbílnum. Maður gerir einhvern veginn ráð fyrir að það sé allt soldið ógeðslegt...pissulykt, kúkarendur, tannkremsklessur og bjór-ælur, það er ekta íslenskt tjaldstæði. Mælikvarði minn á hversu fínn mér þykir gististaður okkar fer oftast eftir því hvernig klósettaðstæðan er...

 

Æj já, ég gleymdi að segja ykkur frá króatíska stráknum sem við GuðnýGígja og Pálmi Snær sátum á móti í lestinni á leiðinni til Zagreb. Hann var frábær. Mest var hann þó frábær af því að hann gaf okkur vatnssopa(við vorum að deyja úr þorsta og hungri). Hann var á leiðinni heim frá Belgíu. Var mjög áhugasamur um okkur og landið okkar og við um hans. Biðin í lestinni fór í að skiptast á að spila og syngja á gítarinn, takast í hendur og ræða um perlur Króatíu. Hann gerðist einnig svo frábær að panta fyrir okkur ódýrustu leigubílana og bíða með okkur eftir þeim...planið hjá okkur var að taka rútu á flugvöllinn, það kom svo náttúrulega í ljós að auðvitað var töluvert dýrara að taka leigubíl, en ég meina....hann var svo indæll að aðstoða okkur.

 

Okei, PLITVICÉ blebleble(á króatísku) var sá allra fallegasti staður sem ég hef á ævi minni séð(nema fyrir utan íslenska náttúru, eins og mamma sísvanga tók þó fram þegar við vorum að dást af náttúrunni). Vá vá vááá...ég ætla bara að láta myndirnar tala sínu máli...myndir verða neðst.

 

Áður en ég tala um næsta áfangastað okkar ætla ég að útskýra fyrir ykkur hvers vegna mamma fékk nýja viðurnefnið sitt: ,,Mamma sísvanga". Jú, mamma tók þá frábæru ákvörðun að hætta á nikótíntyggjóinu daginn sem við fórum út. Allt gott og blessað með það og við rosa ánægð með hana. Jú, við bjuggumst við töluverðum ,,aukaverkunum" sem allir héldu að mundu tengjast pirringi og stuttum þráði. Ótrúlegt en satt þá hefur sá hluti blessunarlega gengið mjög vel....en mamma er ALLTAF svöng. Þegar við erum nýbúin að kyngja morgunmatnum þá fer mamma aftur að tala um mat. Það sem er svo fyndið við þetta er að svo hefur hún alltaf svo góða og gilda ástæðu fyrir því af hverju hún er svöng: ,,Já, sko ég borðaði nú ekki mikið í morgun. Ég tók tvo bita af brauðinu hjá pabba þínum, borðaði hálfan banana og svona 4 skeiðar af jógúrti. Síðan hef ég ekkert borðað nema að ég tók þarna einn bita af hamborgaranum hans Pálma, sem varla má kalla bita, hann var svo lítill...já og fjóra kóksopa". Við höfum gert mikið grín af henni og sýnt henni hversu fyndið það er þegar hún byrjar að telja upp alla helv.. munnbitana sem hún hefur tekið af hinu og þessu :)

 

Annað...pabbi ,,prinsessan á bauninni" hefur bara varla staðið undir nafni. Eitt af áhyggjuefnum okkar áður en við fórum í reisuna var rúmvesenið á pabba. Neihh, kallinn hefur sko látið sig hafa alla klassa af rúmum, kojum og beddum. Hér með vil ég kjósa að kalla hann pabba veðurblíðu. Ég veit ekki hversu oft á dag pabbi talar um hversu heitt er og ef hann er ánægður með það, þá talar hann mjög mikið um það. Ef það hins vegar fer síðan yfir þá gráðu sem honum þykir of heitt, þá talar hann LÍKA mikið um það. Svona heyrist í honum: ,,Jáhh, 27 stiga hiti úti, það er sko aldeilis flott". Svo þegar hann er búinn að koma sér vel fyrir í sólinni kemur stundum: ,,Það er ekkert að þessu". Svo muldrar hann svona við sjálfan sig á meðan hann er að keyra: ,, 26 stig....26 stig". Hins vegar hefur líka komið: ,,Úff, 29 stig, það má nú varla verða heitara". Pabbi hefur líka verið sá eini sem hefur átt einstaklega erfitt með sig þegar hann heyrir af veðurblíðunni sem er búin að vera heima á Íslandi, SÉRSTAKLEGA á Patró um sjómannadagshelgina.

 

Jæja...eftir paradísina í Plitvicé ákváðum við bara að benda á einhvern stað sunnar á kortinu og enduðum í litum bæ sem heitir Biograd. Það virtist vera vel valið hjá okkur. Við komum seint að kvöldi og fundum risa tjaldstæði þar sem hvert og eitt stæði var númerað. Við völdum okkur extra zone þannig að húsbíllinn okkar var aðeins 30 metrum frá ströndinni og sjónum. Þarna komum við í enn stærri húsbílaheim. Þarna sér maður kannski eitt tjald og bara: ,,Neihh vááá, þarna er tjaaald, ógeðslega kúl". Næsta degi var eytt í sólbaði og við ströndina. Það var í raun svona fyrsti sólarlanda-dagurinn okkar, við höfum ekkert legið í sólbaði. Um kvöldið ákváðum við að taka röltið meðfram ströndinni og þar, enn og aftur fyrir tilviljun, lentum við á svaka hátíð. Þarna var einhvers konar matar- og handverkshátíð kílametralangt. Alls kyns ostar, sultur, vín, kjöt, pylsur, skartgripir og fleira var á básunum, allt heimatilbúið og var boðið upp á smakk á flestum stöðum. Það sem hreif okkur þó sértaklega voru fullt af króatískum tónlistarmönnum sem voru alltaf svona 5 saman í hóp að syngja og spila á gítar, mandólín, kontrabassa og fleira. Þvílíkt stuð og gestir og gangandi tóku undir. Á meðan við nutum þess að rölta á milli bása og njóta kvöldsólarinnar heyrðist nokkrum sinnum í pabba: ,,Sjómannadagshelgin hvað?" :)

 

Næsta dag var stefnan tekin enn sunnar í Króatíu, nú skyldi sko elta sólina og finna góða strönd. Næstu klukkutímar fóru í keyrslu og þónokkurn pirring að finna tjaldstæði og réttan stað til að koma sér fyrir á. Við römbuðum þó inn á bæ sem heitir Makarska. Þar lágum við á ströndinni, syntum í ofur tæru Adriahafinu, horfðum á brjóstaberar konur í sólbaði og leigðum okkur svo vespu til að bruna um bæinn og skoða okkur um....já og þetta var grín með berbrjósta gellurnar.....or is it??

 

Eftir nokkra leit fundum við tjaldstæði í næsta bæ frá Makarska. Það var miklu minna en þau sem við höfðum verið á síðustu nætur...líka ódýrara. Fáránlegt hvað við erum búin að þurfa að borga mikið inná tjaldstæðunum, maður hélt einhven veginn að við værum þvílíkt að spara okkur gistingu og transport með þessum máta...en við þurfum alltaf að borga fyrir bílinn og okkur fimm. Allavega, það er nákvæmlega ekkert í þessum bæ. Við mamma ákváðum að taka röktið(ég tek það fram að það var laugardagskvöld) og reyna að finna opið kaffihús eða á bar til að komast á internetið í leit að leikhúsmiðum í London. Við löbbuðum í gegnum niðamyrkur og komum örugglega að EINA barnum í bænum. Mamma fékk sér rauðvínsglas og ég bolla af kakói. Rauðvínið var ískalt og það aaaalversta sem við höfum báðar smakkað og kakóið var hlandvolgt og fínt:) Þegar við komum til baka sögðust GuðnýGígja og Pálmi aðeins hafa verið að glamra á gítarinn og syngja, eftir 5 min var bankað á húsbílinn: "Susssh, the time is ten o´clock". Á LAUGARDAGSKVÖLDI. Þar fór ,,sjómannadagsdjammið" okkar í ruslið....hehe:)

 

Nú fer að styttast í annan endann á þessari ferð okkar. Ég segi það og skrifa....ÞETTA ER BÚIN AÐ VERA HREINT ÚT SAGT FRÁBÆR FERÐ:) Við höfum mikið talað um það hversu sniðug við erum að hafa tekið þá ákvörðun að fara öll fimm saman í svona reisu. Við höldum að það sé ekki að fara að gerast aftur, allavega ekki í svona ferð. Það er frekar fyndið þegar maður fer að spá í það að við ,,krakkarnir" höfum næstum dottið í þann fíling að vera bara í hlutverki barnanna í þessari ferð. Það er svo langt síðan við höfum öll verið saman í svona langan tíma í einu. Allt í einu hverfur ábyrgðartilfinningin mikla, hlutverkaskiptingin verður öðruvísi og innst inni hugsar maður: ,,Æjjj, mamma og pabbi redda þessu".

 

Ég er svo þakklát fyrir að eiga svona samrýmda fjölskyldu. Við munum seint gleyma þessari ferð og er þetta blogg er líka eins konar dagbók fyrir okkur til að eiga í framtíðinni. Það hafa engin stórkostleg vandamál komið upp. Það vita það allir sem þekkja okkur vel að við erum með svo hrikalega mikið jafnaðargeð öll sömul..........ekki? ;) Nei í alvöru talað. Jú, það hafa allir sterkar skoðanir á hlutunum og við rökræðum um hlutina(stundum soldið hátt) en eftir 5 mín er það bara búið:) Ég tel það var einstaklega góðan kost og við ,,vinnum" vel saman. Ég á bestu fjölskyldu í heimi:)

Í dag ætlum við líka að taka því rólega aftur á ströndinni í Makarska, keyra svo í áttina að Split í kvöld þar sem við munum eyða morgundeginum og fljúga þaðan til London snemma á þriðjudagsmorgun.

Kommentið nú á okkur;)

Bleble,

Svanhvít Sjöfn 

 

 

IMG_5931

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_5948

Við lentum í dembu, sem sem betur fer entist ekki mjög lengi. 

 

 

 

 

 

 

 

 IMG_5973

 

IMG_5976 

 IMG_20120531_143726

IMG_20120531_144109 

IMG_20120531_145836 

IMG_20120531_150110 

IMG_20120531_152258 

20120531_152640 

IMG_5990 

IMG_6012 

IMG_6017 

IMG_6030 

 

IMG_6055 

IMG_6040 

IMG_6071 

IMG_6078 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband